Þegar andlát ber að höndum

Ýmsar gagnlegar upplýsingar varðandi undirbúning útfarar

Þegar andlát ber að, tekur við margþætt og um leið flókið ferli við að undirbúa útför. Aðstoð Útfararþjónustu Kirkjugarða Akureyrar stendur öllum til boða.

Mikilvægt er að aðstandendur velji sér prest eða athafnastjóra til að stýra útförinni og getur Útfararþjónustan haft milligöngu um það ef óskað er. Þeim aðila veitir Útfararþjónustan síðan alla nauðsynlega aðstoð og skipuleggur ferlið í nánu samráði við aðstandendur.

 

 

Dánarvottorð

Læknir gefur út dánarvottorð.  Aðstandendur fá send skilaboð á vefnum www.island.is þar sem svara þarf ýmsum spurningum sem tengjast hinum látna. Að því loknu er gefin út staðfesta eða útfararleyfi sem aðstandendur afhenda presti eða athafnarstjóra.

 

Andlátstilkynnig

Eðlilegt er að tilkynna andlátið til nánustu ættingja og vina. Margir auglýsa það og/eða útförina einnig í fjölmiðlum.

 

Kista og umbúnaður

Kistulagningarathafnir á vegum Útfararþjónustunnar fara fram alla virka daga frá kl. 10-15 í Höfðakapellu en einnig er hægt að óska eftir öðru athafnarými. Kistulagning getur einnig farið fram á undan útför í viðkomandi kirkju.

Starfsfólk Útfararþjónustunnar aðstoðar aðstandendur við val á kistum og útvegar þær. Umbúnaður hins látna fyrir útför er gerður í fullu samráði við aðstandendur.

 

Útförin

Útförin getur farið fram frá hvaða kirkju sem er eða öðru athafnarými. Útfararathöfn getur farið fram hvort heldur sem er yfir kistu eða keri.

Í sumum tilvikum er haldin minningarathöfn á öðrum stað en þar sem útför eða greftrun fer fram, t.d. þegar hinn látni er jarðsunginn fjarri heimaslóðum eða lík hans ekki komið fram.

Sumir óska eftir því að útför fari fram í kyrrþey. Þá ósk ber að virða.

 

Sálmaskrá og skreytingar

Útfararþjónustan sér um uppsetningu og prentun á sálmaskrá sé þess óskað.

Útfararþjónustan miðlar upplýsingum frá blómaverslunum ef aðstandendur óska eftir. Sumir kjósa að sveipa kistuna íslenska fánanum.

 

Tónlist

Aðstandendur ráða alfarið tilhögun tónlistarflutnings við útför. Útfararþjónustan getur bent á organista og annað tónlistarfólk og einnig haft milligöngu um útvegun þess.

 

Burðarmenn

Ákveða þarf hverjir eigi að bera kistuna við útför. Algengast er að burðarmenn séu 6 eða 8 talsins.

 

Legstaður

Ef hinn látni á ekki frátekið legstað eiga aðstandendur val um kirkjugarð eða grafreit. Hægt er að taka frá legstað við hlið þess sem grafinn er.  Einnig er hægt að sækja um leyfi  til dreifingar á ösku að lokinni bálför.

 

Erfidrykkja

Margir bjóða til erfidrykkju eftir útförina. Oft eru erfidrykkjur haldnar í safnaðarheimili viðkomandi kirkju eða öðrum veislusölum.

 

Kostnaður

Útfararþjónusta Kirkjugarða Akureyrar getur gert áætlun um hvað útför muni kosta út frá óskum aðstandenda. Kostnaður er afar breytilegur enda flest atriði valkvæð.

Mörg stéttarfélög taka þátt í útfararkostnaði félagsmanna sinna. Aðstandendur eru hvattir til að kanna þennan rétt um leið og útför er skipulögð.

 

Minningarmörk og umhirða

Algengt er að merkja leiði með bráðabirgða trékrossi eða púlti, merktu með nafni hins látna, fæðingar- og dánardegi. Upplýsingar um minningarmörk eru fáanlegar hjá Útfararþjónustinni.

Aðstandendur geta gróðursett sumarblóm á leiði hins látna. Ekki er heimilt að planta trjám eða hávöxnum runnum á leiði í flestum kirkjugörðum.

 

 

 

Hvernig fer útför fram ?

Kistulagning.

Kistulagning er stutt bænastund nánustu aðstandenda. Þá hefur verið búið um látna í kistu, í fullu samráði við aðstandendur. Möguleiki er á að hafa tónlist við kistulagningarbænina

Útför.

Útför er samfélagsleg athöfn. Þar koma saman nánustu ástvinir og aðrir þeir sem tengjast hinum látna. Að lokinni athöfn er kistan og kransar borin út úr kirkju.  Frá kirkju er kistan flutt með viðhafnarbíl að kirkjugarði. Nánustu aðstandendur taka þátt í líkfylgdinni í garðinn

Dæmi um útfararathöfn

o Forspil / upphafslag

o Bæn

o Tónlist

o Ritningarlestur

o Tónlist

o Guðspjall

o Tónlist

o Minningarorð

o Tónlist

o Bæn og Faðir vor

o Tónlist

o Moldun

o Tónlist

o Blessun

o Eftirspil/útgöngulag

Í Kirkjugarði.

Kistan er borin úr bílnum að gröfinni.

Oftast er kistan látin síga í gröfina á meðan aðstandendur eru á staðnum, þó hafa þeir val um að kistan sé látin síga eftir að þeir eru farnir. Blóm eru látin liggja til hliðar.  Þegar gröfin er frágengin eru blóm og kransar lagðir ofan á leiðið.